Úr andlegu og líkamlegu gjaldþroti

Rétt eins og allar manneskjur hefur lífið gefið mér allskyns miserfið verkefni til að takast á við.

Áföll og streita hafa áhrif á líkamsstarfsemina og lífsgæði almennt.

Eftir mikla áfallahrinu 2014 var ég komin í andlegt og líkamlegt gjaldþrot, ég leitaði mér hjálpar og hóf mína eigin uppbyggingu.

Markmiðið var að ná heilbrigði, það var það eina sem raunverulega skipti mig máli að öðlast heilbrigði. Þarna var ég verkjuð allan sólahringin, óheyrilega þreytt, algerlega þróttlaus og óhemju döpur.

Það er nákvæmlega það sem gerist eftir langvarandi streituástand og svo þegar kemur áfallahrina ofan á streituna lætur líkaminn undan. Líkaminn er svo magnaður að hann stoppar þig og segir hingað og ekki lengra, nú þarftu að skipta um gír!

Ég hóf endurhæfingarferli á eigin vegum sem samanstóð af því að hreyfa sig hóflega og hvílast. Læknirinn minn kom mér að í Þraut og þar fékk ég greininguna ”ILLVÍG” vefjagigt en þar fékk ég einnig fræðsluog endurhæfingu sem var ómetanleg.

Ég íslenska ofurkonan varð að horfast í augu við að ég var komin með langvinnan sjúkdóm og framundan væri ærið verkefni. Trúið mér það tók tíma og var ákveðið skipsbrot að játa sig sigraða enda hafði ég alltaf verið dugleg, unnið helst 130 % og tæklað stór verkefni í lífinu, verið klettur fyrir alla mína og nú var ég algerlega þróttlaus og verkjuð allan sólahringinn.

Ég hafði neitað þessari greiningu fjórum árum áður hjá lækninum mínum og hélt áfram að keyra mig út en nú var komið gott og tími til að ná sátt og hefja raunverulega uppbyggingu.

Ég setti mér eitt markmið: HEILBRIGÐI…..

Ég hafði verið að bæta á mig kílóum undanfarinn ár og það var farið að há mér, ég breytti matarræði og stundaði hóflega hreyfingu undir leiðsögn hjá Þraut og hætti að reykja.

Jebb heilbrigði skyldi ég ná!

Mér var ráðlegt að fara áfram í endurhæfingu hjá Virk og sennilegast færi ég svo á örorku.

Hægt og staðfastlega náði ég upp smá orku og fann að ég styrktist líkamlega en ég hélt áfram að safna kílóum, sama hvað ég gerði.

Staðreyndin er sú að þegar streituhormón líkamans er alltof hátt þá neitar líkaminn að léttast og passar alla fitu og býr til meira, af því líkaminn upplifir stríðsástand og undirbýr sig fyrir svelt og safnar því forða til að eiga þegar hungursneið kemur!

Til að gera langa sögu stutta þá hélt ég fast í markmiðið mitt heilbrigði og fann að breyttur lífstíll hafði góð áhrif, ég var farinn að stunda jóga nidra og djúpslökun og fann að það dró úr verkjum og streitu, auk þess sem ég fór að finna gleðina á ný.

Ég skipti um starfsvettvang og vann hóflega. Hóf að starfa starfa sjálfstætt við ástríðu mína að efla fólk.

Menntaði mig í öllum þeim aðferðum sem ég upplifði að virkuðu vel fyrir mig og komu mér nær heilbrigði, bætti HEILBRIGÐI inn sem ásetningi í jóga nidra og var meðvituð um að taka lítil skref í stað þess að sprengja mig.

Allt skilaði þetta sér nema ég mssti ekki gram af umfram fitu og eftir töluverða rannsóknarvinnu ákvað ég að fara efnaskiptaaðgerðina magaermi í febrúar 2020 og nú ári síðar hef ég misst 30 kg og finn þvílíkan mun á lífsgæðum. Í raun gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu mikið offitan skerti lífsgæði mín fyrr en ég fór að léttast.

Í dag er ég HEILBRIGÐ og líður frábærlega, ég vinn alla daga að eigin lífsgæðum. Hreyfi mig, borða hreina fæðu, fer í jóga nidra tvisvar á dag og nýti mér markmiðasetningu.

Ég er búin að nýta þennan tíma til að bæta við mig verkfærum til þess að efla fól, starfa sjálfstætt og er farsæl í starfi.

Er verkjalaus flest alla daga, það er helst að kuldatíð hafi áhrif á blessuðu gigtina.

Mér finnst ómetanlegt að eiga þessa reynslu, því hún hefur gert mig hæfari í starfi og ég skil betur hvað konur sem eru að þrotum komnar eða með vefjagigt eru að ganga í gegnum og ég kann leiðir sem raunverulega bæta lífsgæði.

Mín ráðlegging til þín er að setja þig í fyrsta sæti og sjá stóra markmiðið fyrir þér vinna svo að því einn dag í einu í hæfilega stórum skrefum, mæta þér með mildi og elsku. Þú átt bara eitt eintak af þér og það er þín ábyrgð að hugsa vel um það svo það endist 🙂

Egóið mitt fékk egóbúst í gær þegar ég var spurð að því hvort frumburðurinn minn væri pabbi minn og þegar ég neitaði því baðst maðurinn afsökunar og sagði nei auðvita er þetta maðurinn þinn 😉

Heilbrigði og hamingja sést utan á okkur!