Mín leið til að auka lífsgæði mín sem vefjagigtarsjúklingur

Ég er greind með illvíga vefjagigt og hef unnið hörðum höndum að því að ná að læra að lifa með henni og sætta mig við að ég mun lifa með þennan sjúkdóm alla mína ævi.

Það hafa komið tímabil þar sem ég stend ekki undir mér, er verkjuð í hverri taug og frumu líkamans, með algert svartnætti í hausnum og fundist lífið lítið spennandi. Ég þurfti að hætta að vinna um tíma vegna þreytu og verkja og mátti ekki við neinu þá fór allt í klessu og ég versnaði og versnaði af einkennum. Ég hef skammast mín fyrir aumingjaskapinn og reynt að halda andliti af ótta við álit annara.

Við vefjuna hef ég barist í mörg ár, eflaust fleirri en ég geri mér grein fyrir en greininguna fékk ég fyrir ca 10 árum og á þeim tíma voru mínir fordómar í garð vefjagigtar mjög miklir. Ég sagði pent “ nei takk “ við læknirinn minn þegar hann greindi mig, ég vildi ekki einhverja ruslgreiningu sem skellt væri á miðaldra kerlingar!

Það tók mig mörg ár að ná sátt við sjúkdómin og læra að lifa með honum, læra að bæta lífsgæði mín og læra að vondu dagarnir verða betri ef ég er góð við mig.

Ég er verkjuð alla daga að einhverju leiti og orkan misgóð en góðu dagarnir verða feiri þegar ég kem fram við mig á réttan hátt, þó ég sé ekki verkjalaus er ég mun verkjaminni og það er unaður.
Mig langar að deila því með ykkur þjáningasystkinum mínum sem eruð með vefjagigt þeim atriðum sem auðveldað hafa mér lífið. Þetta er nefnilega ekki kvennsjúkdómur, karlmenn fá líka vefjagigt.

Mín leið til aukinna lífsgæða:

  • Ég stunda reglulega hreyfingu, annars versna verkirnir en lykillinn þarna var að læra að hreyfa sig eftir getu svo ég væri ekki bara ónýt í þrjá daga eftir hreyfinguna eins og áður.
  • Hreyfa sig rólega, ganga, lyfta og hvað ég hef gaman af en rólega og ekki of mikil þyngd. Nú er ég í vatnsleikfimi og finnst það henta mér mjög vel en ég verð alltaf að vera meðvituð því um leið og ég fer of geyst er ég að vinna gegn mér.
  • Hugleiðsla er afarstór þáttur í minni vellíðan, ég stunda jóga nidra og er mikill talsmaður þess. Jóga nidra er djúp hugleiðsla og hefur hjálpað mér svo mikið að ég fór og lærði að vera jóga nidra kennari og vinn í dag við að hjálpa fólki að ná slökun með viðurkenndum aðferðum.
  • Matarræði ég hef gert miklar breytingar á matarræði, þó enga öfga ég trúi ekki á öfga. Borða reglulega og mikið af grænmeti og ávöxtum og hreint fæði, sneiði hjá unnum matvörum og sykri eins vel og ég get og ég finn að það hefur mikil áhrif á verkina.Hvílast ég leyfi mér að gera ekki neitt, líka þegar allt er í drasli á heimilinu er hætt að þrífa í drep og taka út fyrir þrifin með þriggja daga verkjakasti.

Í raun ef ég súmma þetta upp í eina setningu þá hljómar hún svona:

Sýna sjálfri mér mildi og kærleika.