10 einföld ráð til ykkar

Janúar er gjarnan markmiða- eða áramótaheitamánuður, fólk lítur yfir farinn veg og íhugar hvað það er sem það vill afreka á nýju ári. Eru markmið alltaf raunhæf og íhugar fólk hvernig það getur stutt sjálft sig í að ná árangri. Flest höfum við heyrt að það sé miklu farsælla að skrifa niður markmið sín og það er alveg rétt en að mínu mati er leiðin að þeim mikilvægust.

Hér á eftir koma nokkrar leiðir sem nýtast til þess að ná betri árangri í að uppfylla markmið sín.
– Einföld, lítil atriði sem munu leiða til meiri jarðtengingar og hamingju.

  1. Taktu til á samfélagsmiðlum, samfélgsmiðlar hafa mikil áhrif á sjálfsmynd og líðan. Veldu að fylgjast með þeim sem eru jákvæðir og uppbyggilegir. Neikvæð skilaboð gera ekkert fyrir þig.
  2. Taktu til á heimilinu, allir hlutir hafa áhrif á orkuna okkar. Óreiða hefur slæm áhrif og að geyma hluti sem gagnast ekki eins og of lítil föt eða gamalt ljós úr bíl sem gæti orðið varahlutur einn daginn gerir orkuna þunga og staðnaða. Heimili þar sem hlutirnir eiga sinn stað og er vel loftað út á til að hreinsa orkuna framleiðir jákvæða og öfluga orku.
  3. Lestu fleiri bækur. Lestu bækur eftir allskonar höfunda, bækur víkka út sjóndeildarhringin og lesturinn heldur okkur í núvitund. Lestu uppbyggilegar bækur um fólk sem hefur afrekað og veldu þér fyrirmyndir. Vertu með bók á þér og lestu frekar í henni en að hanga í símanum.
  4. Hugleiddu daglega. Mikið magn rannsókna sínir að hugleiðsla hefur jákvæð áhrif á marga kvilla t.d kvíða og þunglyndi. Einnig hefur verið sýnt fram á það að þeir sem hugleiða eru hamingjusamari og ná betur árangri. Reyndu að hugleiða minnst 20 mín á dag ef þú getur en þrjár mín á dag er líka flott miklu betra en ekki neitt. Hægt er að hugleiða á margan hátt ég sjálf nýtti mér leiddar hugleiðslur þegar ég byrjaði að hugleiða. Finna má leiddar hugleiðslur á youtube og til eru ýmis öpp.
  5. Drekktu meira vatn. Frumur líkamans starfa betur ef þær fá nóg vatn og vatnsdrykkja kemur í veg fyrir ofþornun. Fólk fær oft höfuðverk vegna of lítillar vatnsdrykkju. Við erum að mestum hluta vatn og þurfum að drekka í kringum tvo lítra á dag. Vatn er líka hreinsandi og það veitir ekki af hreinsun nú á tímum gerviefna.
  6. Skrifaðu niður drauma og langanir, sjáðu fyrir þér hvernig það væri að upplifa það sem þú skrifar. Lestu reglulega það sem þú skrifarr niður. Önnur aðferðer að gera sér óskaspjald þar sem þú setur myndrænt upp drauma og langanir og getur svo horft á spjaldið og farið inn í tilfinninguna sem þú myndir upplifa ef draumurin rættist. Með þessu stillirðu þig inn á ákveðna orku og eykur líkurnar á því að óskirnar rætist.
  7. Hafðu fastan minn tíma. Eigðu tíma í hverri viku til að dekra þig og hugsa enn betur um þig. Taktu löng böð, pantaðu nudd, hlustaðu á tónlist eða bara hvað sem nærir þig. Sjálfsást styrkir sjálfsmyndina og eykur líkur á að þú fylgir draumum þínum fast eftir þar sem þú vilt þér vel á öllum sviðum.
  8. Leiktu þér, ekki gleyma því. Hlátur og gleði eru nærandi fyrir frumur líkamans og sagt hefur verið að hláturinn lengi lífið. Með því að leika sér þá ertu að búa til jákvæða orku og heldur þér ungri á öllum aldri.
  9. Hreyfðu þig, regluleg hreyfing kemur gleðihormónum í gang og styrkir líkaman. Einnig dregur reglubundin hreyfing úr verkjum þegar hún er aðlöguð að einstaklingnum. Máttur hreyfingar er ótrúlega magnaður.
  10. Taktu lítil skref í átt að markmiðum. Með því að hafa markmið það smá að þú nærð þeim pottþétt styrkiru sjálfið og kveikir á innri löngun til að ná árangri. Verður sigurvegari í eigin lífi.

Njótið vel og megi allir ykkar draumar rætast.