Góð ráð til að grípa til og gera daginn betri

Suma daga vaknar maður bara illa upp lagður og jafnvel með höfuðverk eða dagurinn byrjar á neikvæðri athugasemd frá yfirmann eða einhverjum öðrum.

Með öðrum orðum dagurinn byrjar þannig að það virðist sem allt sé á móti þér en ekki með þér í dag.

Allir upplifa svona leiðindadaga en til eru ýmis ráð til þess að snúa deginum og flest allir eiga í fórum sínum verkfæri sem nýtast

Kíkjum aðeins í verkfæraboxið og sjáum hvað við getum gert til þess að eignast innistæðu í andlega bankanum svo við eigum auðveldara með að takast á við erfiðu dagana!

Hér koma nokkur einföld ráð sem flest allir geta styrkt hjá sér og nýtt sér:

Skelltu þér í sturtu.

Á slæmum degi er ótrúlega freistandi að liggja í rúminu með sængina yfir haus og velja að vera í eymdinni en með því að fara í sturtu og hefja daginn og þvo af sér leiðndinn. Þarna þarf smá sjálfsaga en þetta er jú einföld athöfn.

Talaðu við einhvern um líðan þína.

Ekki sitja ein/n með tilfinningar og hugsanir, orðaðu þær og fáðu speglun og hvatningu frá öðrum. Þannig situr þú ekki ein/n uppi með hugarangur og jafnvel sekkur dýpra í erfiðar tilfinningar. Einfalt en mikilvægt að velja sér uppbyggilegan aðila til að tala við.

Lokaðu á samkiptamiðla.

Ekki hanga á fréttamiðlum eða samfélagsmiðlum þar er hætta á neikvæðu áreiti sem þú getur ekki stýrt en utan vefmiðla getur þú stýrt betur hverju þú hleypir að þér. Snilld að grípa í góða bók eða skapa eitthvað.

Stundaðu sjálfsrækt.

Sinntu þér vel, mættu þér í mildi. Leyfðu þér að taka tíma fyrir þig án samviskubits. Farðu í bíó, horfðu á mynd, farðu í göngu bara eitthvað sem nærir þig. Kanski nærir þig að gera alls ekkert. Nauðsyn þess að hlaða sig er óumdeilanleg. Það má kveikja á sjónvarpi um miðjan dag eða hanga í baði ef það er gott fyrir þig. Þú átt eitt eintak af þér og þín ábyrgð að sinna því vel.

Farðu út í náttúruna

Náttúran er heilandi og að draga inn ferskt loft er gott fyrir líkama og sál. Sjáðu fegurðina í náttúrunni það gerir gott að njóta fegurðar. Fátt betra en að ganga í náttúrunni og finna fyrir vindinum eða rigningin og náttúruilmurinn sem fylgir. Ef þú átt hund er snilld að kippa honum með.

Stýrðu huganum.

Ekki festast í neikvæðum hugsunum yfir því sem hefur gerst. Taktu ákvörðun um að hefja daginn að nýju. Skrifaðu niður allt sem þú hefur gert vel, skrifaðu niður allt sem þú ert þakklát/ur fyrir. Það kemur í veg fyrir neikvæðan huga. Tær snilld að skella einhverri ofurhressadi tónlist á og trufla hugan eða horfa á eitthvað hrikalega fyndið. Hugurinn er nefnilega þannig að hann truflast auðveldlega.

Rifjaðu upp góðar minningar.

Skoðaðu myndaalbúm, hringdu í vin og ræddu skemmtilega minningu eða enn betra endurtaktu leikinn. Flest okkar gerðu einhver kjánastrik í æsku eða á unglingsárum, sum okkar eru enn að gera kjánaprik sem fá okkur til að brosa.

Hugleiddu.

Hugleiðsla er eitt öflugasta verkfæri í því að styrkja sjálfan sig. Hugleiðsla dregur úr streitu, kvíða. Hugleiðsla styrkir þig innan frá og ótal margar ritrýndar rannsóknir sýna fram á breytta og betri heilastarfsemi hjá þeim sem hugleiða reglulega. Það er ekkert mál að hugleiða fullt af öppum og dóti til.

Þetta eru aðeins nokkur atriði en þau kveikja klárlega í fleiri atriðum. Njóttu lífsins það er þitt.