Feitan og ljótan

Hver þekkir ekki feituna og ljótuna?

Ég þekki þessar systur af eigin raun og hef þekkt þær alltof lengi!
Í fjölda ára hef ég unnið að því að útrýma þessum systrum úr lífi mínu og í dag hitti ég þær sem betur fer mjög sjalda.

Þær systur eru skaðvaldur og þess vegna ákvað ég að skrifa aðeins um þær því það er algengt að fólk hitti þær …. Þið vitið þegar mikið er um mannamót og allir vilja vera sem fallegastir.

Hverjar eru þær systur feitan og ljótan og hvaðan koma þær og hver er tilgangur þeirra?

Systurnar feitan og ljótan eru ranghugmyndir sem eiga pláss í höfðinu á okkur, litlar raddir sem segja okkur að við séum feit og ljót.Þær segja okkur það sama hversu falleg og vel vaxin við erum.
Þær eru ótrúlega góðar að ljúga að okkur !
Systurnar feitan og ljótan koma gjarnan til okkar vegna þess að við mátum okkur við einhverjar óraunhæfar hugmyndir um líkamsvöxt og útlit.
Margar ytri aðstæður geta fært okkur þær systur og ef sjálfið okkar er brotið eða lítið þá nær það í feituna og ljótuna Sem eru oft birtingarmynd lítillar sjálfsmyndar.

Tilgangur feitunar og ljótunar er að brjóta okkur niður, fylla okkur af skömm á eigin útliti og oft tekst þeim að þróa kvíða, þunglyndi, átröskun, sjálfsskaða og fleira sjúklegt ástand.

Ekki svo spennandi félagsskapur ef við hugsum það aðeins…. Heldur mjög óæskilegur félagsskapur.

Ég sagði ykkur í upphafi frá því að ég kannast við þær en hitti þær sem betur fer afar sjaldan í dag og þannig hefur það verið í nokkuð mörg ár, heppna ég.

Stundum hugsa ég um ungu stelpuna mig sem var alltaf feit og ljót og skoða svo myndir af henni og sé hvað hún var falleg og óttalega mjó, en ranghugmyndir systrana fylgdu sjálfinu sem var brotið og því að hún gat ekki mátað sig við heim tískunnar, þar sem módelin voru fullkomin.

En hvernig fór ég að því að hrekja þær burtu?

Með því að læra aðferðir til að styrkja eigið sjálf og þannig læra að elska mig.
Þessar aðferðir og miklu fleiri sem ég hef lært í námi og með því að framkvæma þær.
Á farsælum ráðgjafaferli hef ég notað þessar aðferðir og fleiri til að hjálpa öðru fólki til að útrýma þeim úr sínu lífi. Bæði með einkaviðtölum og námskeiðum.
Það er eitt af því besta við starfið mitt að sjá fólk vaxa og losna við þessar systur sem fylla hausin af ranghugmyndum.
Fólk á öllum aldri getur þurft aðstoð við að losa sig við þessar systur. Styrkurinn felst í því að sækja sér hjálpina.
Þetta snýst nefnilega ekki um kílóafjölda eða útlit… nei…. Þetta snýst um sátt í eigin skinni og útgeislun.

Veldu sátt og útgeislun